Róðrasvæði og áætlanir

Róðrasvæði

Á Íslandi er hægt að finna góð róðrasvæði um allt land nema við suðurströndina. Útnes og skagar eru eðlilega erfið svæði, svo sem Reyjanesskagi, svæðið fyrir Jökli, Hornstrandir, skgainn austan Eyjafjarðar, Melrakkaslétta og Langanes. Góð svæði má telja eftirfarandi:

 • Skerjafjörður, Kollafjörður, Hvalfjörður – vindur við Esju og í Hvalfirði getur verið varasamur
 • Mýrar – mikið brim verður af haföldu á skerjum við Mýrar
 • Breiðafjörður – víða er mikill fallastraumur
 • Margir firðir á Vestfjörðum – vindur er víða varasamur í þröngum fjörðum
 • Innan fjarða víða á norðurlandi og Austfjörðum
 • Stærstu vötn landsins.

Ferðaáætlanir

Ferðaáætlu er gerð til þess að allt gangi sem best og til að tryggja öryggi. Eftirfarandi þættir geta verið hluti af ferðaáætlun:

 • Leiðin sem ætlað er að fara, nota skal kort og búta leiðina upp í leggi og skrifa vegalengdir og stefnur
 • Veðurspá, sérstaklega vindur en einnig úrkoma og líklegt skyggni. Vindur ræður ferðahraða og sjólagi að hluta og stundum er óráð að róa.
 • Sjávarföll og straumar. Best er að skrifa niður tíma flóðs og fjöru og gera sér grein fyrir fallastraumum, sem venjulega eru mestir á miðju falli en liggjandi á flóði og fjöru. Sumar leiðir eru ekki færar á fjöru vegna grynninga.
 • Strönd og lendingar. Skoða þarf hvar er grýtt, hvar eru klettar og björg, hvar eru færar lendingar og skoða hve langt er milli þeirra.
 • Vegasamband. Ef hætta þarf ferð fyrr en ætlað var er mikilvægt að hægt sé að komast í land nálægt vegasambandi. Það er ekki hægt að bera bát og búnað langa leið yfir erfitt land.
 • Tjaldstæði og gistingar. Víða er hægt að tjalda rétt ofan við fjöru og fáir bændur amast við því nema æðarvarp sé á svæðinu eða ós laxveiðiár. Ekki er sjálfgefið að vatn í lækjum sé drykkjarhæft, hafi þeir runnið um byggð er það víða mengað. Gistiaðstaða er nú víða um allt land, en þó á fáum stöðum nálægt fjöru. Það getur verið vandamál að skilja bát og búnað eftir við bryggju í þorpi ef umgengni er ekki góð og því betri kostur að liggja í tjaldi utan við byggðina.
 • Samskipti eru víðast í lagi, einkum þó ef bæði eru símar og VHF talstöð með í för. Þó eru til svæði sem eru “blind”, einkum undir björgum og bröttum fjöllum. Sé verið í sambandi við Gæsluna er því gott að vera búinn að láta vita um áætlun fyrirfram. Á blindum stað er möguleiki að ganga upp í fjallshlíð eða jafnvel að kalla og biðja skip sem heyra að vera millilið. Hugsa þarf fyrir því hvort rafhlöður dugi og hafa auka með til vara.
 • Viðlegubúnaður er að mestu eins og í gönguferð, þyngdin má vera um tvöfalt meiri, en enginn stór hlutur kemst í lestarnar. Þurrmatur, haframjöl, grjón og dósamatur, súpur og annað eins og fyrir gönguferð duga vel en allt þarf að vera örugglega pakkað í vatnshelt. Möguleiki er að veiða fisk í soðið en ekki er víst að aðstæður leyfi það. Um leið og komið er í land er best að fara í þurr land- og útivistarföt því að venjulega eru ræðarar sveittir og kulvísir vegna þreytu.
 • Öryggisbúnaður er auk vel búins kajaks og þurrbúnings, varaárar, toglína, flauta, neyðarblys, sími og önnur fjarskiptatæki, viðlegubúnaður, sjúkrapakki, viðgerðasett og verkfæri.