Greinar iðkunar

Sérhæfing er mikil í greinum kajak- og kanóróðurs. Við notum sama orð á íslensku fyrir róður á árabát og fyrir róður á kajak eða kanó . Á ensku eru notuð orðin ‘rowing’ og ‘oar’ fyrir róður og ár í árabát en paddle og paddling fyrir ár og róður í kajak og kanó. Hér er ekki skrifað um árabáta og ekki heldur um siglingar á skútum og við tölum ekki um að sigla kajak eða kanó, nema þeir séu búnir seglum.

Helstu gerðir kajaka eru straumkajak, brimkajak, ölduskíði, sjókajak og ásetukajak og þeim er róið með tveggja blaða ár. Algengustu kanóar eru opnir og henta best fyrir tvo ræðara, straumkanó sem er rennilegri og oft lokaður og með skorður fyrir ræðarann og svo má hafa hér með pall eða bretti sem staðið er á og er þeim róið með langri kanóár. Brimbretti falla utan við þessa flokkun, enda er engin ár notuð þar og eru þau því skyldari snjóbrettum og hjólabrettum þar sem stýrt er með halla og jafnvægi líkamans.

Helstu greinar iðkunar:

Ásetukajakar/ SOT Sit On Top/ eru opnir, breiðir með tvöföldum botni. Hægt er að vega sig upp i slíka báta úr sjó. Þeir eru stöðugir og henta vel til veiða en þeir meira ofar en sjókajakar og taka meiri vind á sig.

Fatlaðir stunda víða róðrarsport, sumir þurfa aðstoð við að komast í bátinn en geta síðan róið til jafns við aðra.

Ferðalög og leiðangrar, á sjókajak eða kanó eru vinsæl og geta verið mikið ævintýri. Góður undirbúngur er lykilatriði en reynt getur verulega á kunnáttu og færni.

Fimleikabátar/ playboat/ freestyle/ eru stuttir straumbátar, flatir til endanna og notaðir til eins konar fimleikaæfinga í straumvatni eða brimi við strönd.

Kanóferðir eru oftast um ár og vötn á opnum kanóum með tveim ræðurum og nokkrum farangri. Róður í vindi er ekki léttur á kanó og góða þjálfun þarf til að fara niður ár og flúðir. Sérstök tækni er notuð til að fleyta kanó frá landi með böndum og til að bera þá fram hjá farartálmum. Ekki er létt fyrir ræðara á sundi að rétta kanó við og sérstakar hættur geta beðið ræðara í straumhörðum ám.

Kanósigling er góð leið til að hagnýta vind á stóru vatni og oft er seglabúnaður einfaldur og hugvitssamlegur, en einkum notaður undan vindi. Nota má ár aftur með skut til að stýra. Sérhæfðir bátar eru notaðir til þess að keppa í kanósiglingum og eru ekki ósvipaðir kænum sem notaðar eru í siglingaklúbbum.

Póló er leikið í sundlaug í stuttum kajökum, 5 leikmenn eru í liði. Þeir bera hjálma með andlitsgrind og ýmist kasta eða slá boltann með árinni í mark.

Róðrarpallur/ SUP/ er bretti sem staðið er á og róið með langri kanóár á aðra hlið. Eðlilega hentar það best í hlýju veðri og sléttum sjó, en dæmi er um að róið var frá Kúbu til Flórída, með fylgdarbáti.

Sjókajak. Sjókajakar eru margskonar en fyrirmynd þeirra allra er upprunalegi qajaq grænlenska veiðimannsins. Færni til að stjórna sjókajak snýst um að hafa leikni og þrek til að takast á við hvers kyns veður og sjólag, koma kajak fram á sjó eða upp í land við ólíkar aðstæður og fjörur, geta farið af öryggi milli kletta og skerja, geta veitt fisk, hafa allt sem þarf í róðri í seilingarfjarlægð og rata í dimmu sem björtu. Sumir þjálfa sig í leikni við veltur eða áratækni, aðrir í spretti eða þreki, sumir vilja vera einir í kyrrð aðrir að vinna með hópi í langferð, aðrir æfa fimi í öldum, brimreið og brimlendingar og loks er gott að kunna að láta fara vel um sig á hrjóstrumgum skerjum og eyjum.

Sprettróður er stundaður á löngum og grönnum eins- eða tveggja manna sjókajökum (K1 og K2) og kanóum (C1 og C2) en einnig á ölduskíðum. Á Ólympíuleikum er keppt á 200 m, 500 m og 1000 m brautum.

Straumróður er róður á straumkajak niður ár með flúðum og iðum af ýmsum gerðum, jafnvel fram af fossbrúnum. Þetta eru stuttir, lokaðir bátar með einu rými og venjulega uppblásnum belgjum í endum. Ár eru flokkaðar eftir erfiðleikastigi, I til V, en stigið ræðst einnig af rennslinu, sem venjulega er mælt í rúmmetrum á sekúndu. Straumróður krefst snerpu og lipurðar, öruggrar veltufærni og samvinnu félaga sem kunna straumbjörgun auk þess sem þekking á farveginum og færni í að lesa í strauminn eru lykilatriði. Stundum er keppt með tímatöku fyrir tiltekna leið.

Straumsvig/ slalom/ er keppnisgrein á Ólympíuleikum og er þá keppt í straumkajak eða eins og tveggja manna straumkanó. Sett eru upp hlið með hangandi stöngum og leysa þarf ýmsar þrautir á tíma.

Surf/ öldufimi/ brimreið. Surfróður er sérhæfing í róðri nálægt landi þar sem hafaldan kennir grunns, rís og hraðar sér upp að ströndinni. Nota má sjókajaka en betra er að hafa styttri báta sem líkjast straumkakjak.

Veltur eru vinsælt viðfangsefni á námskeiðum og æfingum og henta sundlaugar vel til þess eða grunn sandfjara að sumarlagi. Færni til að velta sér upp eftir hvolfun er ómissnotaðar fyrir straumræðara og er einnig mikilvæg á sjó. Ekki er gert ráð fyrir því að kanóræðari velti sér við ef kanó hvolfir, en færir straumræðarar á kanó geta þó gert það.

Ölduskíði/ surfski/ eru langir og grannir opnir og grunnir kajakar vel fallnir til að fylgja haföldum, en eru einnig mjög hraðir á sléttum sjó, svipað og K1 kajak sem notaður er til keppni á Ólympíuleikum. Þekktasta keppni á ölduskíðum er Molokai keppnin á Hawai eyjum sem er 60 km vegalengd, en vinsælastir eru þessir bátar í heitum sjó t.d. við S-Afríku.