Klæðnaður

Klæðnaður og tengdur búnaður þarf að miðast við vatnið og hitastig þess fremur en lofthitann. Aldrei á að fara á sjó í léttum útivistarfötum og alltaf að vera með vel fest og stillt björgunarvesti. Það er best að líta á vestið sem hluta af klæðnaði fyrir róður, þannig að það gleymist ekki. Hér á norðurslóðum er best til lengdar að klæðast þurrgalla, en nota má blautbúninga sem eru ódýrir.

Helstu flíkur fyrir ræðara á Íslandi eru eftirfarandi:

  • Blautbúningur venjulega úr Neopreni 3-5 mm þykku, síðerma, á að falla þétt að líkama
  • Þurrbúningur fyrir kajak, vel rúmur, þéttur við úlnliði og um háls, annaðhvort með áfasta þurrsokka eða vera þéttur um ökkla
  • Tvískiptur þurrbúningur, toppur og buxur, hlutarnir þurfa að tengjast vel saman þannig að vatn fari ekki í neðri hlutann.
  • Undirföt, hlý og með síðar ermar og skálmar fyrir þurrbúning en efnislítil fyrir blautbúning
  • Vaðskór eða kajakskór, með góðan botn en þó sveigjanlegir til að komast í þröngan bát og ekki sleipir í fjörunni.
  • Vettlingar og höfuðföt eftir veðri og smekk.
  • Björgunarvesti sem hentar fyrir róður, vel stillt þannig að það sitji þétt um mittið en hindri ekki andardrátt.

Mikið úrval er til erlendis af slíkum búnaði en hér á landi er sjaldan hægt að ganga inn í verslun og fá búnað og stærð sem passar. Margt er til hjá GG Sport en einnig Ellingsen og Sports Direct og af og til er notaður búnaður til sölu á vef Kayakklúbbsins. Annars er hægt að panta á vefnum, það er jafnvel betra en að ætla að fara í verslun erlendis á ferðalagi þegar um galla er að ræða, því að þær liggja ekki með lager í öllum stærðum.

Best er að leita til reyndra ræðara og kanna hverju þeir mæla með.