Skyndihjálp og heilsuvandi á sjó

Allir sem bera ábyrgð í ferðum ættu að hafa gild réttindi í skyndihjálp, það á við um leiðsögumenn og kennara. Rauði krossinn á Íslandi heldur reglulega námskeið og gefur út skírteini sem gilda í tvö ár og er með vefsíðuna skyndihjalp.is um námskeiðin. Námskeiðin eru af nokkrum gerðum en heppilegt fyrir okkur er 12 klst. námskeiðið.  Slysavarnafélagið Landsbjörg er einnig með lengri námskeið fyrir sitt fólk.

Róður og ferðalög á sjókajak er ekki hættulegri en annar ferðamáti, hætturnar eru þó ólíkar. Það sem er sameiginlegt er allt sem viðkemur heilsu og veikindum fólks og því er mikilvægt fyrir leiðsögumenn og nánustu samferðamenn að fá upplýsingar frá hverjum og einum áðru en lagt er af stað. Þurfi fólk að taka lyf eða bregðast við með lyfjatöku, t.d. vegna sykursýki eða hjartavanda, þarf að huga fyrirfram að því hverni nálgast má lyfin á sjó, eða komast í land með stuttum fyrirvara. Á sjó kann að vera ágjöf og hendur kaldar og það er verra ef einhver missir krafta og meðvitund á kajak, en í gönguferð á fjöllum.

Heilsutengdir þættir sem huga þarf sérstaklega að í kajakferðum eru ofkæling, drukknun þ.m.t. skyndidrukknun, endurlífgun við erfiðar aðstæður, áverkar og meiðsl í grýttum fjörum, áverkar frá öðrum bátum í erfiðu sjólagi, meiðsl á fingrum af dekklínum eða toglínum, vökvajafnvægi líkamans, liðhlaup á öxl, álagsbólga við úlnliði. Auk þess þarf að æfa björgun á sjó, allt frá sjálfs- og félagabjörgun til þyrlubjörgunar úr lofti.

Með þetta í huga hafa kajakræðarar stundum fengið kennara til að halda sérstakt námskeið og er þá lögð áhersla á ofkælingu og drukknun, en að öðru leiti er efnið hið sama.

Búnaður sem hafður er í för til skyndihjálpar þarf að vera í vatnsheldum umbúðum og þannig að hægt sé að troða honum í þröngt rými.