Veður, sjólag og straumar

Hér eru nokkur einföld atriði sem mikilvægt er að hafa í huga um veður og aðra umhverfisþætti þegar farið er í róður:

  • Ekki ætti að fara í róður í meiri vindi en 8-10 m/s en þá er farið að hvítna verulega í vindbáru. Þetta er bara viðmiðun, stundum vilja vanir ræðarar æfa sig í mun meiri vindi þar sem þeir þekkja aðstæður og geta tryggt öryggi hvers annars.
  • Það kann að vera spennandi að fara á sjó undan vindi, engin alda er þá í fjöru og róðurinn áreynslulaus í fyrstu. Aldan stækkar þó fljótt þegar fjær landi er komið og ekki víst að óvanur ræðari geti snúið við án þess að velta eða hafi næga þjálfun og krafta til að ná til baka.
  • Veður breytist oft snögglega hér á landi, því skyldi skoða veðurspá vandlega daginn áður og aftur rétt áður en farið er í róður. Nálægð fjalla hefur mikil áhrif á stefnu og styrk vinds og það sést venjulega ekki á veðurkortum.
  • Skyggni getur versnað þegar rignir og ef þoka leggst inn firði og dragist róður á langinn er betra að vera viðbúinn dimmu á haustin og um vetur.
  • Sjólag mótast af undiröldu á svæðinu, af vindöldu sem kann að hafa allt aðra stefnu, sker og grynningar magna undirölduna upp og valda oft brotum og loks er oft endurkast frá klettum og björgum sem víxlast við sjólagið sem fyrir er og myndar ólgu og gusugang.
  • Við nes, mynni fjarða og útskaga landsins eru straumar vegna sjávarfalla. Venjulega inn firði þegar fellur að og öfugt við útfall. Aðstæður eru oft ólíkar við ströndina handan við fjörð. Þegar alda mætir fallastraumi magnast hún upp og sjólag verður verulega erfitt. Þetta má forðast með því að sæta lagi á liggjandanum.
  • Auk fallastrauma við útnes eru verulegir straumar víða milli eyja á Breiðafirðinum og þarf að gæta þar varúðar og skoða aðstæður vel.