Efni

Byrjendanámskeið

Fyrstu kynni við kajak og öryggi á sléttum sjó og í góðu veðri.

Námskeiðið miðast við fullorðna og einhver sundkunnátta er áskilin. Ekki þarf að hafa reynslu af kajak, gallar og búnaður eru á staðnum.

Helsta kennsluefni: Búnaður, stilling fótstiga, sjósetning og landtaka, jafnvægisæfingar, árabeiting við róður, snúningur í kyrrstöðu, leiðrétting stefnu og einföld stýring, notkun svuntu, hvolfun og einföld félagabjörgun.

Veltur og björgun

Grunnþættir veltu kenndir í sjó nálægt fjöru. 

Veltan er brotin upp í hluta og farið að þörfum hvers og eins. Nemendur þurfa að vera í hlýjum undirfötum og þurrbúningi. Notkun húfu, nefklemmu og sundglerauga eins og hverjum og einum finnst hann þurfa.

Björgunaræfingar miða að meiri færni en í byrjendanámskeiðum og að því geta leyst úr mismunandi aðstæðum. Kynnt er notkun hjálparbúnaðar eins og lensidælu, toglínu og stuttlínu.

Áratækni

Aukin færni við róður og stjórn kajaks við erfiðar aðstæður. 

Árabeiting sem ekki er hægt að kenna á byrjendanámskeiðum og samhæfing líkama, báts og árar sem gefur öryggi við krefjandi aðstæður.